Möguleg verkefni

Hér fyrir neðan koma nokkrar tillögur að verkefnum.

Sæktu síðuna sem PDF skjal

Yfirlit

Á námskeiðinu er þátttakendum boðið að vinna verkefni sem eru til þess fallin að hjálpa þeim að ná valdi á hæfniviðmiðum námskeiðsins. Sum verkefnin eru þannig að allir vinna þau, önnur eru valkvæð. Verkefnin tengjast öll hagnýtri útfærslu, en jafnframt er reiknað með fræðilegri ígrundun við svo til öll þeirra. Enda er eitt aðal markmið námskeiðsins að þátttakendur geti í lok þess rökstutt skipulag og framkvæmd fræðslustarfsemi sína.

Verkefni sem allir vinna (75% af einkunn):

  • A. Skipulagning Námsframboðs / Námskeiðs – gerð námskeiðsmöppu (45%)
  • B. Skrifa markmið fyrir námskeið / námsferli (5%)
  • C. Sjálfsmat (5%)
  • D. Skipulagning námsferlis með ólíkum aðferðum (10%)
  • E. Þátttaka í samvinnu á vefnum (10%)

Valkvæð verkefni (25% af einkunn. Raðið þessum verkefnum þannig að þið náið upp í 100%)

  • F. Skrifaðu bókarýni (15%)
  • G. Kynntu þema á fundi (5-10%)
  • H. Lýstu rannsóknargrein (5-10%)
  • I. Kennsluæfing (5-10%)
  • J. Skrifaðu Aðferðalýsingu (5%)
  • K. Taktu þátt í stuttu námsferli lýstu því og greindu það (5%)
  • L.  Þjónustuverkefni (5%) t.d:
    • Skipuleggja og stýra fundi
    • Stýra tæknimálum allt misserið: Útsendingar af fundum, frágangur upptaka o.s.frv.
    • Skrifa fundargerð eftir staðlotu eða eftir þrjá fundi (gott að vinna tveir og tveir saman)
    • Styðja við og leiða umræður á umræðuþráðum

Skráið val ykkar hér

ATH vinsamlega lesið þetta um verkefnaskil

A. Útbúa námskeiðsmöppu

Tilgangur

Þátttakendur fara í gegnum það ferli að skipuleggja námskeið frá upphafi til enda og eiga að þessu námskeiði loknu tilbúið námskeið sem þeir geta haldið við tækifæri. Með þessu móti ættu þeir að ná öllum helstu markmiðum námskeiðsins í einu verkefni.

Lýsing

Skipulegðu námskeið.  Útbúðu námskeiðsmöppu skv. sérstöku sniðmáti sem þú getur sótt þér á námskeiðsvefinn og nýttu þér hugmyndir úr lesefni námskeiðsins og öðru sem þú nærð í.  Námskeiðið þarf að vera svo til tilbúið að halda það, nema þú þarft ekki endilega að hafa útfært alla innihaldslegu þættina, frekar en þú vilt.

Reiknað er með að námskeiðið fari fram í 2-3 heila daga. Ef námskeiðið er styttra í hvert skipti en teygist á lengri tíma, þá mappan að innihalda fleiri daga.

Mappan inniheldur allt sem þú þarft í tengslum við undirbúning námskeiðs.

Á viðeigandi stöðum í möppunni þarf að vera blað með einkennandi lit (t.d. gult), þar sem þú skrifar kennslufræðilegan rökstuðning fyrir því sem þú ert að gera til dæmis: Hvers vegna velur þú tiltekna uppröðun í stofu? Hvers vegna velur þú tiltekna röð atburða, dagskrá, aðferð…? Hverju viltu ná fram? Hvers vegna er þessi aðferð til þess fallin? Hvaða mannskilning felur hún í sér? o.s.frv. Í þessum hluta sýnið þið kennaranum að þið hafið lesið og skilið námsefnið

  • Það er ljóst að þið nýtið ykkur hugmyndir og kenningar um nám og kennslu fullorðinna við útfærslu og rökstuðning
  • Þið nýtið ykkur kenningar, aðferðir og venjur í tengslum við skipulagningu náms (fyrir fullorðna) við skipulagningu námskeiðsins og við rökstuðninginn. Reiknað er með að heimildir námskeiðsins séu nýttar við rökstuðninginn.
  • Við tilvitnanir og tilvísanir í heimildir styðjist þið við viðurkenndar hefðir innan vísindasamfélagsins. (Við menntavísindasvið er reiknað með að nemendur noti APA staðalinn. Nemendur menntaðir þar sem aðrir staðlar voru notaðir við skráningu heimilda nota þá staðla sem þeir eru vanir – sjá t.d. Chicago staðalinn). Leiðbeiningar Hróbjarts um fræðileg skrif má finna á vefnum is (Lestu þær!)
  • Magn… Hugmyndin er að þið skrifið A) nokkrar síður til að lýsa hugsuninni að baki námskeiðinu, skipulaginu og fyrst og fremst rökstyðja skipulagið í heild sinni (Það þarf örugglega 3-5 síður í þetta) og B) c.a. eina síðu í hverju tilfelli um einstaka þætti námskeiðsins: Uppröðun í stofunni, upphaf, áætlun um heimfærslu, tiltekin verkefni, námsmatsaðferð, endir námskeiðsins eða eitthvað annað sem þig langar til að rökstyðja. Þetta ættu að vera amk. 5 atriði samtals amk. 5 síður. Þá er ein síða í heimildaská fyrir allt saman, þannig að við erum að tala um 9-12 síður.

(Ef þú sérð alls ekki fram á að þú munir nokkurntíma kenna námskeið, skalt þú ræða við kennarann um öðru vísi verkefni.  Það myndi væntanlega snúast um skipulagningu á einu þrepi ofar: námsleið, eða námskeið sem þú kennir ekki en býrð til. Þá þarftu að velja námskeið, kennara, áherslur og annað sem þú ætlast til af kennurum og rökstyðja það með rökum úr lesefninu en verkefnið þarf að innihalda samskonar kennslufræðilegan rökstuðning, nú verður þú að sækja hann í námskrárfræðina, mannskilninginn, kennslufræðina o.s.frv.)

Námsmat

Útfærsla, sjálfstæði í hugsun og skipulagi og rökstuðningur. Þátttakendur fá gátlista sem er notaður við námsmat. Sjá gátlistann sem er notaður við námsmat

Möguleiki er á leiðsagnarmati fyrir kennslufræðilega rökstuðninginn. Þá eru þátttakendur beðnir um að senda rafrænt eintak af rökstuðningnum fyrr á misserinu. Nokkrum dögum síðar koma viðbrörðin til baka og þá er hægt að laga hann samkvæmt ábendingum og skila í lok misseris til einkunnagjafar.

Nánari upplýsingar:

Skiladagar:

B. Skrifaðu markmið

Samvinna um verkefnið fer fram í vikum: 6 og 7.

Tilgangur

Æfing í því að skrifa og meta námsmarkmið

Lýsing

Skrifaðu amk. þrjú markmið fyrir námskeiðið þitt og skilaðu þeim Í TurnitIn

Þegar þú skipuleggur kennslu hefur það sem þú gerir iðulega þann tilgang að hjálpa fólki að læra eitthvað.  Markmið kennslunnar er að eftir hana vita, kunna og/eða geta þátttakendur eitthvað nýtt, eða betur en áður. Það sem við ætlum að skoða núna er hvernig þú skrifar markmið fyrir kennsluna, og hvernig vel orðuð markmið geta hjálpað þér að kenna og nemendunum að læra.

Hér ætlum við sem sagt að skoða einn afmarkaðan þátt þess að skipuleggja nám , en það er að skrifa markmið námsins.

Hvað getur þú gert til að ná valdi á því að skrifa markmið?

Þegar þú hefur lesið þig til um markmið og finnst þú vera búin/n að átta þig á því mikilvægasta skaltu velja þér mjög afmarkaðan hluta námskeiðins sem þú ætlar að undirbúa og skrifa nokkur markmið fyrir hann.

Settu svo þrjú á vefinn okkar í umræðuþræðina: eitt markmið í hvern þráð, til að gefa okkur tækfæri til að hjálpa þér með verkefnið. Byrjaðu á því að setja eitt markmið inn, fáðu viðbrögð við því, lagaðu það og settu inn nýtt… Hjálpaðu svo hinum:

Svo skaltu bregðast við amk. þremur markmiðum bekkjarsystkina á vefnum, hjálpaðu þeim að bæta markmiðin sín í samræmi við fyrirmælin:

  • Er athöfnin skýr og sýnileg?
    Gætir þú séð nemandann GERA það sem athöfnin lýsir?
    …t.d. telja upp, skrifa, benda, smíða, snitta,
  • Koma fram skilyrði fyrir athöfninni?
    Er skráð undir hvaða kringumstæðum frammistaðan á að fara framt.d. : Án hjálpargagna, standandi, á vettvangi…?
  • Eru mælikvarðarnir skiljanlegir og mælanlegir?
    Er lýsing í markmiðinu á því hvað er ásættanlegur árangur? Þessi hluti markmiðsins segir til um það hversu vel þátttakandinn á að kunna, eða hvað felst í réttri hegðun
    T.d.:

    • „Telur upp (athöfn) án hjálpargagna (skilyrði) 10 (mælikvarði) höfuðborgir í Evrópu“ eða
    • „Hjólar (athöfn) án hjálpardekkja og óstudd/ur (skilyrði) 200 metra án þess að detta (mælikvarðinn)

Námsmat:

Ég skoða hvort þú skrifaðir þrjú markmið. Inniheldur hvert markmið greinilega ATHÖFN, SKILYRÐI og MÆLIKVARÐA? Hjápar þú amk. þremur samnemendum? Hvernig rökstyður þú athugasemdir þínar við samstúdenta þína?

  • Er athöfnin skýr og sýnileg? 25%
  • Koma fram skilyrði fyrir athöfninni? 25%
  • Eru mælikvarðarnir skiljanlegir og mælanlegir? 25%
  • Hjálpaðir þú amk. þremur bekkjarsystkinum með markmiðin í umræðuþráðunum? 25%

Skiladagur:

C. Sjálfsmat

Stutt skýrsla (1-2 bls.) um þín eigin markmið á námskeiðinu og hvað þú gerðir til að ná þeim og hæfniviðmiðum námskeiðsins og hvernig þér tókst til.

Námsmat er fyrst og fremst byggt á rökstuðningi þínum og pælingum:

  • Einkunn 7 fyirir góða upptalningu
  • Einkunn 8+ fyrir góðan sjálfstæðan rökstuðning

D. Skipulagning námsferlis með ólíkum aðferðum

Þetta er hópaverkefni sem allir taka þátt í á seinni hluta námskeiðsins.

Taktu þátt í að skipuleggja „Ímyndað“ námskeið þar sem þú notar tiltekna aðferð. Hópurinn útbýr kynningu á þessari nálgun og meðlimir hópsins nýta sér vinnuna til að undirbúa sín eigin námskeið.

Tilgangur

Þátttakendur kynna sér og prófa ólíkar nálganir við það að skipuleggja nám fyrir fullorðna.

Þeir æfast í því að finna aðalatriði hugmyndar / aðferðar / nálgunar eða kenningar og miðla því.

Þátttakendur þjálfast í því að nota vefinn til að koma náms- og kennsluefni á framfæri við aðra.

Lýsing

Þátttakendur velja sér eina nálgun og vinna með hópi samnemenda sinna við að skipuleggja ímyndað námskeið fyrir tiltekinn markhóp – ímyndaðan eða raunverulegan.  Um er að ræða prófa nálganir sem eru aðeins öðruvísi in þær hefðbundnu sem meiri hluti námskeiðsins snýst um:

  • Business Model Generation – Námskeiðshönnunin fær á sig mynd hönnunar viðskptalíkans.
  • Design Thinking:Við notum aðferðir lista og hönnunar til að skipuleggja námskeið.

Niðurstaða

Þátttakendur hafa í höndunum efnivið sem þeir geta notað við að skipuleggja eigið námskeið

Þátttakendur skrifa saman 2 stuttar kynningar um það sem þeir lærðu við það að skipuleggja námskeiðið:

Kynning A) Nálgunin (3-5 mínútur)
Stutt lýsing á nálguninni sjálfri

Kynning B) Ferlið og niðurstaðan (7 mínútur)

  • Lýsing á ferlinu
  • Ígrundun um ferlið og það sem þátttakendur lærðu við vinnuna
  • Lýsing á námskeiðinu sem varð til

Þið komið þessu á framfæri við samnemendur

  1. a) Með því að vista kynningarnar í bloggfærslu á vefnum þannig að samnemendur geti hlustað á þær og brugðist við með athugasemdum.

Reiknað er með að nemendur noti svo þessa vinnu til að vera betur í stakk búnir til að skipuleggja sjálfir sitt eigið námskeið.

Námsmat

  • Er kynningarefnið vistað á aðgengilegu stað á vefnum (Microsoft Stream, Slideshare, Prezi, Youtube eða svipað…)?
  • Kynningin á nálguninni:
    • er á bilinu 3-5 mínútna löng
    • lýsir nálguninni á skýran og greinargóðan hátt
    • inniheldur öll helstu atriði
    • án málalenginga
    • flutningur er skýr og skiljanlegur
    • framsetning á kynningargögnum (glærum / prezi kynningu / hugarkorti) er snyrtileg, áhugaverð að horfa á og fagmannlega unnin.
  • Kynning á ferlinu
    • er á bilinu 7-10 mínútur
    • inniheldur helstu skref á leiðinni.
    • er skýrt framsett
    • ígrundun er uþb. helmingur kynningarinnar
    • ígrundun sýnir að hópmeðlimir hafa velt fyrir sér aðferðinni, myndað sér skoðanir og geta rökstutt þær – líka með tilvísunum í fræði og jafnvel rannsóknir
    • án málalenginga
    • flutningur er skýr og skiljanlegur
    • framsetning á kynningargögnum (glærum / prezi kynningu / hugarkorti) er snyrtileg, áhugaverð að horfa á og fagmannlega unnin.
    • Kynningin er vistuð á vefnm (Stream, Youtube …)
  • Umræður
    • Takið þátt í umræðum á netinu með því að bregðast við hópverkefnum hinna.

Skiladagur:

E. Þátttaka

Allir taka virkan þátt í því sem gerist á násmkeiðsvefjum námskeiðsins (Facebook , námskeiðsvefnum og námsbrautarvefnum) og skila þremur „skýrslum“ um þessa þátttöku. 

Við lærum best á með því að hjálpast að. Og flest ykkar stefnið að því að vera leiðtogar á einhverju sviði. Þess vegna er kjörið tækifæri að æfa sig í því að not tækifærið og æfa leiðtogahegðun hér.

Þátttakendur skrifa stutta skýrslu („Virkni­skýrslu“ / „Þátttökuskýrslu“) um eigið framlag til námskeiðsins mánuðinn á undan. Skilið PDF skjali í TurnitIn 1. mars, 1. apríl og 2. maí. Ég mun svo nota þau og það sem ég sé á vefnum til að gefa einkunn fyrir þennan hluta.  Þegar ég tala um um þátttöku þá á ég við:

  • Leiðtogahegðun: Hvernig styður þú við nám samnemenda þinna, ferð á undan með góðu fordæmi og allt það sem er hér fyrir neðan.
  • hvetja og styðja við hina þátttakendurna með uppbbyggjandi viðbrögðum við því sem þeir setja á vefinn og taka umræðuna þegar þeir bjóða upp á það, hvort sem það er á FaceBook, námskeiðsvefnum eða námsbrautarvefnum.
  • Benda okkur á gagnlegt efni, annað hvort með stuttri færslu á FB, bloggfærslu á námskeiðsvefinn eða slóð með skýringu í gegnum Diigo (Það birtist þá í hópnum okkar og á forsíðu námskeiðsvefsins)
  • Skipuleggja og halda utan um þriðjudagsfund (ákveða byrjun, kennsluaðfeðir og leiða atburðinn)
  • Skrifa fundargerð (þar sem þú segir frá skipulagi, kennsluaðferðum og stutt um innihald þriðjudagsfundar eða staðlotu 2)
  • Annað sem þér dettur í hug að miðla, deila með okkur, fá okkur til að tala ums.frv. á námskeiðinu
  • Taka þátt í og styðja við umræður í tengslum við þemu námskeiðsins, t.d. í lokuðu umræðuþráðunum.

 

Þátttaka á námskeiðinu snýst sem sagt um alls konar athafnir sem snúast um að gera námskeiðið betra og áhugaverðara fyrir okkur öll; deila, miðla og hvetja af gjafmildi. Það eru allt hlutir sem einkenna leiðtoga! OG ekki gleyma þátttaka þín á vefumhverfi námskeiðsins er tækifæri fyrir þig að æfa þig í því sem námskeiðið snýst um og í hlutum sem nútíma leiðtogi gerir.

Þátttöku- eða virkniskýrslan snýst um þátttöku þína í námssamfélaginu á vefnum, um að ígrunda hvað þú hefur gefið af þér í námssamfélagið og hvernig þú hefur nýtt tækifærið til að æfa „leiðtogahegðun“ í hópnum. Hámark 1 bls.

Skilahólf: TurnitIn

Skiladagar

  • mars
    • apríl
  • maí

F. Bókarýni

Lesið bók sem fjallar um eitthvert meginþema námskeiðsins og skrifið bókadóm um bókina og skilið á sem bloggfærslu á námskeiðsvefinn.

Tilgangur

Þátttakendur þjálfist í því að lesa fræðibækur á gagnrýninn hátt og gera grein fyrir efni þeirra og framlagi til fræðanna á stuttan og skilmerkilegan hátt.

Lýsing

Skrifið bókarýni um bók um efni sem er nátengt viðfangsefni námskeiðsins. Það er um að gera að ræða um bókavalið við kennara. Bókarýnin er hugsuð sem hjálp fyrir aðra nemendur á brautinni og almenning sem vafrar in á vef námsbrautarinnar og vill fræðast um kennslufræði fullorðinna…. Þú ert sem sagt að skrifa fyrir aðra, fyrir fólk sem hefur áhuga á fullorðinsfræðslu og þú ert að skrifa til að hjálpa því að átta sig á bók sem þú hefur lesið.

  • Lesið um ritun bókarýni á netinu. (Dæmi um leit: takið eftir leitarorðunum – við erum að spá í leiðbeiningar frá ritrýndum fræðiritum)
  • Finnið leiðbeiningar um ritun bókarýni í einhverju fræðilegu tímariti. Öll fræðirit gefa út leiðbeiningar fyrir höfunda, meðal annars um bókarýni. Þar kemur fram hvernig ritstjórar þess ætlast til að fólk skrifi og skili bókarýninni.
  • Hraðlesið nokkra bókadóma í fræðiritum (dæmi)
  • Veljið fyrirmæli frá einu tímariti,
  • farið eftir þeim og
  • setjið tilvísun í fyrirmælin neðst í bókarýnina.
  • Nýtið síðan það að þið eruð á námskeiði og eruð að vinna með fleira fólki, fáið kollega úr námskeiðinu til að lesa og gagnrýna… hjálpist að við prófarkalsetur.

Nauðsynlegar upplýsingar

  • Hefðbundnar bókfræðiupplýsingar um bókina
  • Mynd af bókinni
  • Mynd af höfundinum
  • Stutt um höfundinn og hvað annað hann/hún hefur birt (stutt yfirlit)
  • Fjöldi tilvitnana í bókina (Sjá leiðbeiningar hér)

Efni samkvæmt lýsingu tímarits um bókarýni

Svo kemur það sem tímaritið biður um í bókarýnina: Umfram upplýsingarnar hér fyrir ofan bætir þú við öllu því sem kemur fram í lýsingunni sem farið er eftir.

Frágangur:

  • Spáið í að þið eruð að skrifa fyrir almenna lesendur og textinn birtist á opnum vef
  • Spáið í stærð mynda
  • Setjið slóð í leiðbeiningar í lok færslunnar ásamt texta um að leiðbeiningar séu fengnar þaðan.
  • Lengd: Eins langt og þarf til að gera efninu þokkaleg skil

Lokaskrefið

Að lokum er málið að koma þessu verkefni inn í umræðuna á námskeiðinu sjálfu. Birta bókadóminn sem bloggfærslu á námskeiðsvef námskeiðsins.

Til viðbótar við bókadóminn sjálfan skrifar þú stuttan texta sem sýnir:

  • Hvernig bókin tengist þemum námskeiðsins
  • Hvert þér  finnst framlag bókarinnar vera til einhvers þema sem við höfum verið að takast á við á námskeiðinu?

Vistið þessa færslu undur flokknum „Verkefni“ og með viðeigandi tögum

Námsmat

Hversu vel þú ferð eftir leiðbeiningum um ritun bókadóma, bæði formlega og innihaldslega.

  • Eru allar Bókfræðiupplýsingar?

Innihaldslega skoðum við:

  • lýsingu á höfundi,
  • lýsingu á bókinni í heild og
  • staðsetningu hennar í fræðaheiminum.
  • Endursögn þín á innihaldi er metin og hversu vel rýnir þú í bókina, þar erum við að leita að gagnrýnu sjálfstæðu  viðhorfi rökstuddu á grundvelli annars sem þú hefur lesið.

Þetta er spurning um að staðsetja bókinana í tengslum við önnur rit um sama efni, meta á gagnrýninn hátt efnistök, skýrleika, hugmyndir og að hversu miklu leiti höfundi tekst ætlunarverk sitt… svo eitthvað sé nefnt.

Skiladagur:

G. Kynntu þema á fundi

Tilgangur

Þátttakandi setur sig sérlega vel inn í eitt þema námskeiðsins og æfist í að velja aðalatriði, endursegja annarra hugmyndir, greina og meta á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt.

Lýsing

Þátttakandi / þátttakendur lesa sig inn í eitt þema námskeiðsins og 1) útbua stutta kynningu (10-12 mínútur) sem hann/hún/þau kynna á  fundi, kynninguna má líka taka upp, birta á námskeiðsvefnum þannig að þátttakendur eru búnir að hlusta á  fundinum. 2) Stuðla að umræðum í kring um þemað á  fundinum og/eða á námskeiðsvefnum. 3) Skrifa bloggfærslu um þemað.

Þetta getur verið t.d.

A) Nálgun við skipulagningu fræðslu

  • Caffarella
  • Design Thinking
  • Business model Generation
  • Instructional Design
  • aðrar nálganir

B) Kennslufræðilegt viðfangsefni eins og

  • Upphaf námskeiðs
  • Mótun félagslegs umhverfis
  • Skipulagning og stjórn áþreifanlegs umhverfis
  • Hvernig fær maður fólk til að taka þátt / vera virkt á námskeiði / lesa heima / axla ábyrgð á námi sínu
  • Notkun félagsmiðla í námi og kennslu
  • Hvernig vekur maður og viðheldur áhuga fullorðinna námsmanna
  • Hlutverk leiðbeinenda í námi fullorðinna

C) Áhrif tiltekinna námskenninga á skipulag kennslu:

  • Hvernig áhrif hefðu hugmyndir hugsmíðahyggju á skipulagning náms fyrir fullorðinna
  • Hvers vegna væri áhugavert að láta hugmyndir Knud Illeris um nám fullorðinna hafa áhrif á skipulagningu námsferla. Hvernig myndu þær nýtast á áþreifanlegan hátt við skipulagningu náms?
  • Hvernig væri hægt að nota hugmyndir George Siemens um Connectivisma við að skipuleggja nám. Hvers vegna væri það áhugavert, hvaða afleiðingar gæti það haft á námið?
  • aðrir… Gagné, Carl Rogers, Mezirow….

Um er að ræða að lesa sig inn í viðfangsefnið og kynna það á áhrifaríkan hátt. Hafandi í huga að vera hagnýtur en jafnframt sýna fagmannlega gagnrýni

D) Stór þemarannsókn hóps

Myndaðu hóp (2-4 meðlimir) sem skoðar afmarkað viðfangsefni með n.k. vettvangsrannsókn:

  • Hvernig fer kennsla fram í fullorðinsfræðslu á Íslandi? Meðlimir hópsins fá að fylgjast með kennslu á nokkrum stöðum á landinu, gera stuttar skýrslur um það sem fram fór, bera saman bækur sínar og gefa skýrslu á 1) Skýrsla í formi Bloggfærslu og upptöku skilað á vef námskeiðsins viku fyrir fundinn. 2) Stjórnun umræðna á fundinum.
  • Hvernig er góð kennsla á netinu skipulögð? Þátttakendur skrá sig á nokkur netnámskeið og fylgjast með og/eða taka þátt eins og þeir hafa löngun og tíma til. Skrá hjá sér skipulag námskeiðsins, bera saman bækur sínar og kynna niðurstöður á 1) Skýrsla í formi Bloggfærslu og upptöku skilað á vef námskeiðsins viku fyrir fundinn. 2) Stjórnun umræðna á fundinum.

Námsmat

Kynningin: Framestning, innihald og flutningur

Blogg: Uppbygging færslunnar, framsetning, ytra form, heimildaskránign.

Skiladagur:

Semdu við kennara um dagsetningu þar sem þú notar fund til að fjalla um efnið. Viku eftir  fundin birta flytjendur bloggfærslu um þemað með slóð í kynninguna og stuttri frásögn um umræður á  fundinum. Önnur leið er að taka kynningu upp, birta á námskeiðsvefnum og koma af stað og viðhalda umræðum á vefnum um innihald kynningarinnar.

H. Ritrýni rannsókargreinar

Þetta verkefni felst í því að finna ritrýnda fræðigrein/rannsóknargrein (helst erlenda grein – lestu hér um það hvernig þú finnur þær) sem fjallar um eitt afmakað efni sem tengist einhverju þema námskeiðsins sem þú tekur þátt í, gera grein fyrir greininni, niðurstöðum hennar og framlagi til fræðanna og hvernig niðurstöðurnar tengjast umræðunni á námskeiðinu.

Tilgangur

Þátttakandi þjálfast í að finna áhugaverðar, og gagnlegar rannsóknargreinar sem tengjast viðfangsefni námskeiðsins, sömuleiðis æfist hann/hún í að lesa og endursegja rannsóknir annarra.

Lýsing

Þátttakandi finnur nýlega rannsóknargrein sem tekur fyrir eitthvað afmarkað efni sem tengist tilteknu þema námskeiðsins. Hér skiptir máli að

  • kanna hvar greinin birtist og
  • finna út hversu mikið er vitnað í hana
  • átta sig á því hvernig greinin talar við fyrri rannsóknir
  • endursegja innihald greinarinnar, með áherslu á
    • rannsóknarspurningu,
    • rannsóknaraðferðir,
    • niðurstöður og
    • sérstöðu greinarinnar,
  • meta framlag hennar
    • hverju halda höfundar að þeir séu að bæta við í fræðasamfélagið
    • eigið mat á því hvort svo sé
  • hvernig hún tengist viðfangsefni námskeiðsins og hvernig hún geti nýst okkur í okkar viðfangsefni

Þetta þarf að koma fram

  1. Hefðbundnar bókfræðiupplýsingar um greinina. Á sama formi og í heimildaskrá, með slóð í greinina. Feitletrað
  2. Fjöldi tilvitnana í greinina (Sjá leiðbeiningar hér)
  3. Stuttur kafli um höfundinn (ef þeir eru margir; þá mjög lítið um hvern) og upplýsingar um helstu birtingar aðrar (stutt yfirlit) með slóðum í heimasíður þeirra hjá háskóla eða vinnustað.
  4. Endursögn á rannsókninni.
  5. Rannsóknarspurning
  6. Hverju segjast höfundar bæta við umræðuna um viðfangsefnið
  7. Rannsóknaraðferðir
  8. Niðurstöður
  9. Álit þitt á framlagi greinarinnar til fræðanna?

Vistaðu umfjöllunina sem Bloggfærslu á námskeiðsvefnum  undir flokknunum (Category) „Verkefni“ og „Rannsóknargrein“ og með viðeigandi efnisorðum „Tags“. Smelltu hér til að búa til færslu.

Lengd: Eins langt og þarf til að gera efninu þokkaleg skil  trúlega samtals 4 -5 síður af texta.Námsmat

Nákvæmni í endursögn, gæði bakgrunnsrannsókna, hversu skýrt þátttakandi lýsir aðalatriðum greinarinnar, formið… eru alla upplýsingar til staðar?

  • Kynning 5% (talglærur settar á vefinn og umræður á fundi / vef eða kynning og umræður á fundi)
  • Skýrsla 5%

Skiladagur:

Á fundi  munnlega og skriflega c.a. viku eftir fundinn.

I. Kennsluæfing

Tilgangur

Þátttakendur fái smá innsýn og æfingu í kennslu fullorðinna, prófi nýjar aðferðir en aðallega að þeir geti lýst eigin kennslu, rökstutt hana og ígrundað. Þátttakendur skila einni stuttri skýrslu sem inniheldur lýsingu og ígrundum um áhorf og eigin kennslu.

Verkefnið er í tveimur hlutum: A) Áhorf og B) Kennslu. Þeir gilda hvor um sig 5% til einkunnar. 10% saman. Skilum verkefnisins er lýst í lið C).

Lýsing

  1. A) Áhorf: Heimsæktu námskeið þar sem kennsla fullorðinna fer fram, hjá símenntunarmið, endurmenntunarstofnun, vinnumálastofnun, fyrirtæki. Þú getur séð um að fá að heimsækja stað sjálf/ur eða fengið kennarann til að nota sín sambönd til að hjálpa þér að finna stað:
  • Fylgstu með amk. þremur ólíkum kennslustundum.
  • Skráðu það sem þú sérð á þar til gert eyðublað.
  • Berðu það sem þú sást saman við reynslu 3-4 annarra þátttakenda á námskeiðinu og
    • Skrifaðu síðan um það sem þú sást í skýrslunni.
    • Skilaðu bæði áhorfsblöðunum með skýrslunni.
  1. B) Skipulegðu og kenndu a.m.k. tvisvar sinnum eina til tvær kennslustundir, annað hvort í námskeiði sem þú ert að halda, eða fáðu að koma inn í kennslustund, hjá einhverjum kollega þínum eða einhverjum kennara sem þú þekkir eða í símenntunarmiðstöð. Í þessari kennslustund skalt þú prófa einhverja aðferð/ir sem þú hefur lært á námskeiðinu. Það er nauðsynlegt að þú sért að gera eitthvað nýtt, að prófa aðferð eða nálgun sem er ekki hluti af rútínu þinni.  Fáðu einn eða tvo þátttakendur af námskeiðinu, (eða í neyðartilfellum einhvern annan sem getur gefið gagnleg viðbrögð) til að fylgjast með og gefa þér viðbrögð eftir á – aðeins jákvæð.
  2. C) Skrifaðu skýrslu: Niðurstaðan úr A og/eða B verður c.a 4-6 síðna skýrsla þar sem þú lýsir:

úr hluta A)

  • Upplýsingum um kennsluna sem þú fylgdist með
  • Stuttri lýsingu á kennslunni, með áherslu á atriði sem þú tókst sérstaklega eftir
  • Tenging þess sem þú sást við eitthvað af því sem þú ert að lesa á námskeiðinu

úr hluta B)

  • Lýsing á því sem þú ætlaðir að gera
  • Hvernig kennslan varð í raun og veru og
  • Hvað kom út úr samtali þínu við kollega þína eftir á, hvað sögðu þau, og hvað lærðir þú á samtalinu
  • Niðurstaða: hvað lærðir þú á verkefninu. Markmiðið hér er fyrst og fremst íhugunin um eigin praxís.  Hvernig hugsar þú um, greinir frá og rökstyður það sem þú gerir í kennslu. Hér þarftu að nota eitthvað af því sem þú lest á námskeiðinu til að speigla þig í eða nýta á annan hátt við ígrundunina.
  • Í skýrslunni um kennslu þarf í lokin að koma smá athugasemd frá þér um það hvað þú hafðir til hliðsjónar þegar þú veittir kollega viðbrögð: Kynntu þér hvernig maður gefur kollegum viðbrögð við kennslu ==> þetta er dæmi um leit sem gæti komið að gagni.Að sjálfsögðu þarftu að geta heimilda í skýrslunni OG hvers vegna þér þótti þær sem þú notar við hæfi – hér er verið m.a. að spá í gæði og áreiðanleika efnis sem þú finnur á vefnum.

Námsmat

Skýr framsetning á skýrslunni, skýrar lýsingar á eigin kennslu og áhorfi, rökstuðningur byggður á þinni reynslu og studdur hugmyndum og kenningum sem þú hefur kynnst í náminu. Snyrtileg framsetning skýrslu, málfar, heimildavísanir.

Skiladagur:

Lýsa kennsluaðferðum / Aðferðalýsing

Tilgangur

Þátttakendur þjálfist í því að lýsa kennsluaðferðum, meta þær og greina. Markmiðið er að þjálfast í því að hugsa skýrt og gagnrýnið um kennsluaðferðir, útfærslu þeirra og notkun.

Lýsing

Finndu þrjár aðferðir sem henta við kennslu fullorðinna – úr bók, úr eigin aðferðasafni eða af vefnum…

  • Lýstu aðferðinni með eigin orðum í þar til gert form.
  • Flokkaðu aðferðina, þannig að það sé hægt að sjá undir hvaða kringumstæðum eða við hvaða hluta námskeiðs er gagnlegt að nota aðferðina (upphaf, endi, upprifjun, úrvinnslu námsefnis, umræður, hópvinnu, námskeiðsmat, heimfærsla o.s.frv.) og
  • Rökstyddu hvers vegna aðferðin nýtist til að ná tilætluðum árangri. Útskýrðu hvaða mannskilningur liggur að baki aðferðinni og hvaða áhrif má reikna með að hún hafi fyrir einstakling og hóp.

Aðferðalýsingin birtist á opnum hluta námskeiðsvefsins, enda er hugmyndin að þið setjið ykkur í þær stellingar að vera að skrifa fyrir aðra sem kenna fullorðnum.

Lýsingin þarf að innihalda lýsingu á markmiðum aðferðarinnar, hvaða tilgang hún hefur og undir hvaða kringumstæðum passar að nota hana. Þá þarf að lýsa henni þannig að annar kennari geti framkvæmt hana. Ef þátttakendur þurfa einhverjar leiðbeiningar á pappír til að framkvæma það sem er verið að bjóða þeim uppá, þarf viðkomandi blað að fylgja með sem Word skjal / pdf eða ….

Hjálpargögn og lesefni

  • Lestu gögnin í þessari möppu
  • Taktu eftir reitum í sniðmátinu
  • Kjörið er að lesa grein Müller „Methodik“um val á aðferðum í tengslum við þetta verkefni.
  • Þá er umfjöllun Ingvars Sigurgeirssonar í „Litróf kennsluaðferðanna“ ómissandi hvað þetta snertir. Einkum flokkunarkerfi hans.

Námsmat:

Val á aðferð (Hversu vel hentar hún fullorðnum), flokkun, lýsing, kennslufræðilegur rökstuðningur, gagnrýnið metandi viðhorf, vel læsilegur texti.

Skiladagur:

K. Taktu þátt í námsferli

Tilgangur

Með þessu verkefni er markmiðið að fá fyrstuhandar reynslu af einhverju námsferli og skoða það í ljósi þess sem við erum að læra á þessu námskeiði. Með því að taka þátt og skoða námsferlið með augum kennslufræðinnar eru líkur á að þú sjáir annað en þú hefðir séð annars.

  • Skráðu þig á stutt námsferli og prófaðu að taka þátt t.d. í:
  • Starfssamfélagi á vefnum
  • Stuttu námskeiði í gegnum tölvupóst
  • MOOC (ókeypis vefnámskeið)
  • Vefstofu (Webinar)
  • Námskeiði á staðnum
  • Ráðstefnu

Lýsing

Gerðu grein fyrir námsferlinu með Bloggfærslu á námskeiðsvefinn

Þetta þarf að koma fram:

  • Ljósmynd??
  • Nafn og stutt lýsing með dagsetningum osfrv
  • Slóð í upplýsingar
  • Lýsing
    • Markmið
    • Form
    • Aðferðir
    • Upphaf / Endir
    • Kennsluaðferðir
  • Greining
    • Tenging við námsefni / námskenningar / sögu… annað
    • Uppbygging
    • Kennsluaðferðir; hverjar, tilgangur, notkun, hversu vel heppnað
    • Stuðningur við nám
    • Námssamfélag
  • Mat
    • Samanburður við kenningar / leiðbeiningar
    • Persónulegt mat:
      • Skemmtlegt – Leiðinlegt
      • Innihaldsríkt – Lítið innihald
      • Lærdómsríkt…
      • Þetta tek ég með mér

L. Þjónustuverkefni

Þátttakendur skipta á milli sín ákveðin þjónustuverkefni í tengslum við námskeiðið:

  • Undirbúningur og fundarstjórn fundar
  • Tæknileg stjórn fundar
  • Skrifa fundargerð með kennslufræðilegri lýsingu á fundinum.
  • Skipulagning og stjórnun annarrar staðlotu
  • Tæknilegur stuðningur fyrir fjarnema á staðlotu eitt og tvö
  • Skrifa fundargerð eftir staðloturnar
  • Styðja markvisst við umræður á umræðuþráðunum og draga umræðurnar saman í bloggfærslu.

Tilgangur

Þátttakendur þjálfast í ýmsum hagnýtum þáttum þess að leiða námsferla og geta tjáð sig um þá á skýran og  gagnrýninn hátt.

Lýsing

Þátttakendur skipta á milli sín að vinna ákveðin „þjónustuverkefni“ í tengslum við námskeiðið:

  • Undirbúningur og fundarstjórn fundar
  • Tæknileg stjórn fundar
  • Skrifa fundargerð með kennslufræðilegri lýsingu á
  • Skipulagning og stjórnun annarrar staðlotu
  • Tæknilegur stuðningur fyrir fjarnema á staðlotu
  • Skrifa fundargerð eftir staðlotu
  • Styðja við og halda umræðu gangandi á FB og námskeiðsvefnum

Þátttakendur undirbúa og vinna verk sem nýtist samnemendum á námskeiðinu. Málið er að reyna að vinna verkið eins vel og mögulegt er. Og skrifa stutta skýrslu með því að gera:

Gátlista á Wiki á námsbrautarvefnum sem nýtist nemendum sem vinna svipuð verkefni síðar

Stutta skýrslu um hvernig verkið gekk og hvernig svona verk nýtist almennt til að styðja við nám fullorðinna. Birta sem Blogg á námskeiðsvefnum, með slóð í gátlistann á Wiki vefnum

Skilasvæði

Um…

Verkefnaskil

Vinsamlega lesið þetta um-verkefnaskil

Hjá TurnitIn finnið þið skilahólf fyri verkefni ATH Skráið ykkur inn með HÍ netfangi og lykilorði

Leiðsagnarmat

Á námskeiðinu er boðið upp á leiðsagnarmat. Skilaðu verkefninu til mats, breyttu því og skilaðu því til einkunnar.

Dagsetningar

Hér má finna allar dagsetningar, einnig fyrir skil á verkefnum.

Sæktu síðuna sem PDF skjal

 

Að lokum…

Hvernig velur þú verkefni?