Á námskeiðinu hittumst við á vikulegum fundum kl. 15 – 16:30 á fimmtudögum. Þar að auki á tveimur staðlotum, þar sem verða verkstæði með mikilli hópavinnu.
Við munum senda alla atburði út jafn óðum og taka þá upp. Ég hvet alla til að gera það sem þeir geta til að vera með að minnsta kosti „á línunni“. En veruleikinn er samt þannig að ekki komast allir. Reynsla mín sýnir að nemendum sem taka virkan þátt í samvinnunni vegnar betur á námskeiðunum og námsárangurinn verður betri. Hvernig sem sú samvinna lítur út. Við gerum allt til að námið sé jafn gott fyrir þá sem eru í fjarnámi og þá sem eru í staðnámi, en til þess að það gangi, þurfum við öll að leggjast á eitt. Þeir sem hitta samnemendur sjaldnar þurfa að leggja aðeins meira á sig á vefmiðlunum til að ná að byggja upp gagnlegt samband við alla á námskeiðinu. Þess vegna notum við Facebook og umræðuþræði á námskeiðsvefnum. En það þýðir lika að þeir sem mæta í Stakkahlíðina þurfa að líta á Facebook og námskeiðsvefinn sem staðinn þar sem námskeiðið fer fram 😉 Það er þannig ekki nóg að mæta bara í tíma. Hjálpumst að við að gera námskeiðið gagnlegt og ánægjulegt fyrir alla með því að skilja eftir okkur spor á vefmiðlunum og gefa af okkur allstaðar þar sem við mætumst 😉
Útsendingar fara fram í gegnum fjarfundabúnaðinn Adobe Connect.
- Slóðin í fundarherbergið er: c.deic.dk/namfullordinna
- Það er algjörlega nauðsynlegt að nota heyrnartól þegar maður tekur þátt í fjarfundi.
- Þá er og nauðsynlegt að lesa leiðbeiningar fyrir fundargesti og fara eftir leiðbeiningum með stillingar á tölvu.
- Reiknið með að taka virkan þátt í fundunum í gegnum fjarfundabúnaðinn.