Sagnir sem hæfa markmiðum

Til þess að skrifa skýr markmið þarf að nota skýrar sagnir sem lýsa athöfnum sem eru sýnilegar og mælanlegar, annars verður erfitt að meta hvort einhver hafi náð markmiðunum. Ef maður skrifar markmið eins og:

  • Þátttakandi þekkir helstu umferðamerki

Fylgir ekki með í yrðingunni hvernig við fáum að vita hvort þátttakandinn þekki umferðamerkin eða ekki. Þannig að það er ekki sérlega skýrt. Hvorki nemandinn né kennari geta auðveldlega sagt til um það þegar markmiðinu er náð. Ef við veljum aftur á móti sögn sem felur í sér athöfn, þá geta þeir sem verða varir við athöfnina metið hvort þátttakandinn hefur náð markmiðinu, í okkar tilfelli; þekkir merkin:

  • Þátttakandi telur upp 10 algeng umferðamerki

Viðstaddir geta heyrt (eða lesið) upptalningu þátttakandans og metið hvort upptalningin sé rétt.

Val okkar á sögn getur gefið til kynna hversu vel þátttakandi þarf að kunna námsefnið að námsferlinu loknu:

  • Þátttakandi flokkar umferðamerki frá öðrum merkjum í safni merkja

Þegar þátttakandinn getur greint á milli umferðamerkja og annarra merkja vitum við ekki hvort hann veit merkingu þeirra og skilur hvaða afleiðingar þau eiga að hafa fyrir hegðun hans í umferðinni. Ef við skrifum aftur á móti:

  • Þátttakandi útskýrir merkingu 10 algengustu umferðamerkjanna

… er ljóst að þátttakandinn þarf að geta greint þau frá öðrum merkjum og skilja merkingu þeirra  það vel að hann geti sagt frá henni.

Af þessu má ljóst vera að það skiptir máli að velja sagnir sem maður notar til að skrifa markmið af kostgæfni. Góð leið til þess er að kynna sér flokkunarkerfi Bloom, koma sér upp listum yfir góðar sagnir og nýtar þær þegar maður skrifar markmið.

Lestu þessa grein um ritun markmiða, í henni kemur fer Ingvar Sigurgeirsson nokkuð vel yfir flokkunarkerfi Bloom. Greinin tekur þó ekki til nýlegra breytinga á kerfinu.

Lestu þess vegna meira um flokkunarkerfið. Í Diigo safni mínu undir efnisorðinu #Bloom má finna margt gagnlegt efni um Bloom og flokkunarkerfi hans.

Til þess að auðvelda þér að skrifa markmið fyrir námskeiðin þín er kjörið að útbúa þinn eigin lista, töflu, hugarkort eða mynd  (mynd 2) með þeim orðum sem henta einna best í því samhengi sem þú kennir. Þá verður mun auðveldara að skrifa markmið, enda getur þú sótt þér viðeigandi aðgerðasagnir úr lista sem þú ert búin/n að aðlaga þinni kennslu

Sjá einnig

Skildu eftir svar